Ný alþjóðleg sjónvarpsfréttastöð hefur útsendingar frá Frakklandi

Chirac á skjánum á France 24 í kvöld.
Chirac á skjánum á France 24 í kvöld. Reuters

Ný alþjóðleg sjónvarpsfréttastöð, France 24, hóf útsendingar í dag á þrem tungumálum, frönsku, ensku og arabísku, með viðtölum við franska forsetann og tvo ráðherra. Stöðin sendir út fréttir allan sólarhringinn um vefsetur. Jacques Chirac forseti hefur lagt mikla áherslu á að koma stöðinni á laggirnar, og er henni ætlað að flytja heimsfréttirnar frá frönsku sjónarhorni.

Fyrsta frétt stöðvarinnar fjallaði um skýrslu bandarískrar þingnefndar sem gagnrýndi harðlega stefnu George W. Bush forseta í Írak.

„France vingt-quatre“, eins og stöðin er nefnd á öllum þrem útsendingartungumálunum, sýndi viðtal við Chirac þar sem hann sagði að nauðsynlegt væri fyrir Frakkland „að sjá heiminn frá eigin sjónarhorni og sjónvarpa þessu sjónarhorni í samræmi við okkar hefðir og hugmyndir okkar um menningu, frið, mannhyggju og hnattvæðingu“.

Hafin verður útsending á efni stöðvarinnar á tveim sjónvarpsrásum á morgun, á annarri á frönsku en hinni að mestu á ensku. Stöðin er kostuð af franska ríkinu og keppir á alþjóðavettvangi við CNN, BBC World og Al-Jazeera, sem hóf útsendingar á ensku í síðasta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert