Írak helsta umræðuefni Blairs og Bush í dag

Bush og Blair munu eiga fund í Hvíta húsinu í …
Bush og Blair munu eiga fund í Hvíta húsinu í dag. AP

Forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, mun eiga fund með Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands í Hvíta húsinu í dag. Munu viðræður leiðtoganna einkum beinast að ástandi mála í Írak og endurskoðun á stefnu Bandaríkjanna í Írak. Í gær kom út ný Íraksskýrsla en Bush sagði í gær að í henni væri gefin mjög dökk mynd af ástandi mála í Írak.

James A. Baker III, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Lee H. Hamilton, fyrrverandi þingmaður demókrata, fóru fyrir starfshópi sem Bandaríkjaþing skipaði í mars sl. til að skilgreina stöðuna í Írak og leggja fram tillögur til lausnar ástandinu í landinu. Skýrslan var gerð opinber í gær og eru þar lagðar fram 79 tillögur á 160 síðum. Meðal annars kemur fram að staðan í Írak sé grafalvarleg og fari versnandi og Bandaríkjastjórn verði að breyta stefnu sinni í landinu.

Í skýrslunni er bent á að Bandaríkjastjórn nái ekki markmiðum sínum í Mið-Austurlöndum nema hún taki á deilu araba og Ísraela og óstöðugleikanum á svæðinu öllu. Það þýði beinar friðarviðræður við Ísrael annars vegar og hins vegar við Palestínu, Sýrland og Líbanon, og viðræður þeirra á milli.

Samkvæmt frétt BBC tekur Blair undir þetta og segir að skoða verði málefni Írak með hliðsjón af ástandi mála í Miðausturlöndum og þeim aðgerðum sem þörf er á þar.

Upplýsingamálaráðherra Sýrlands, Mohsen Bilal, segir sýrlensk stjórnvöld fagna skýrslunni og að þau séu reiðubúin hvenær sem er til viðræðna. Það hafi aldrei staðið á Sýrlendingum að halda viðræðum áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert