Norska lögreglan reynir að bera kennsl á „prinsessu“

Lögregla í Noregi hefur leitað til spænsku lögreglunnar eftir aðstoð við að bera kennsl á dularfulla konu sem kallar sig Prinsessuna af Jerúsalem. Hefur lögreglan í Bergen og Ósló reynt að bera kennsl á konuna síðan í sumar, og fengið Interpol til liðs við sig, en án árangurs. Konan er á fertugsaldri og segist heita Anatasia Jerúsalem.

Upplýsingafulltrúi lögreglunnar tjáir Aftenposten að konan tali góða spænsku og ágæta ensku. Gengið hafi verið úr skugga um að hún tali evrópska spænsku, fremur en ameríska. Ekki sé þar með öruggt að konan sé frá Spáni. Þó hafi samráð verið haft við spænska sendiráðið í Ósló og fréttatilkynning send spænskum fjölmiðlum.

Konan segir að prins hafi beðið sig að koma til Noregs. Segist hún ennfremur vera á ferð um heiminn til að boða frið og hjálpa þeim sem séu hjálpar þurfi. Konan gistir nú fangaklefa í Bergen. Hún er ekki grunuð um neitt misjafnt, en hefur hvorki undir höndum farseðla né persónuskilríki. Lögreglan segir konuna einkar talhlýðna og barnslega og því þurfi hún vernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert