Tugir þúsunda Palestínumanna lýstu í dag yfir stuðningi við Ismail Haniyeh, forsætisráðherra heimastjórnar Palestínumanna, í Gasaborg og kröfðust þess að hann verði forsætisráðherra hugsanlegrar þjóðstjórnar Fatah-hreyfingarinnar og Hamas-samtakanna. „Við viljum þig sem forsætisráðherra. Við munum ekki yfirgefa þig,” sagði Ismail Rudwan, talsmaður Hamas-samtakanna, er hann ávarpaði mannfjöldann og vísaði þar til Haniyeh. „Við krefjumst þess að forysta Hamas haldi Ismail Haniyeh sem forseta stjórnarinnar og hverrar hugsanlegrar stjórnar. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
Haniyeh, sem staddur er í Íran, hét því fyrr í dag að viðurkenna ekki tilvistarrétt Ísraelsríkis og að halda áfram að berjast fyrir frelsi Jerúsalem. „Við munum aldrei viðurkenna hina síonísku valdaræningja. Við munum aldrei gefa eftir heilagt stríð okkar fyrr en fullt frelsi Beit al-Muqqadas (Jerúsalem) og landa Palestínumanna hefur verið tryggt,” sagði hann. „Alþjóðasamfélag hrokans og síonistar vilja að við viðurkennum valdarán í landi okkar, að við hættum heilögu stríði og skuldbindum okkur til að virða þá samninga sem gerðir hafa verið en ég heiti því að það mun aldrei verða.”