Bush vill að demókratar og repúblikanar starfi saman að nýrri Íraksáætlun

Bush Bandaríkjaforseti mun ræða stöðun í Írak með háttsettum embættismönnum …
Bush Bandaríkjaforseti mun ræða stöðun í Írak með háttsettum embættismönnum bæði hjá utanríkis- og varnarmálaráðuneytinu í næstu viku. AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti kallaði eftir því í dag að demókratar og repúblikanar starfi saman að því að búa til nýja hernaðaráætlun fyrir Íraksstríðið. Þetta sagði forsetinn eftir að hátt settur hópur sagði að núverandi skipan hermála í landinu væri ekki að virka.

„Nú er það ábyrgð okkar allra í Washington, hvort sem um repúblikana eða demókrata sé að ræða, að koma saman og komast að samkomulagi um hvaða leið fram á við sé best,“ sagði Bush í vikulegu útvarpsávarpi sínu í dag.

Bush hefur legið undir miklum þrýstingi um að breyta hernaðaráætlun sinni í Írak. Stríðið nýtur sífellt meiri óvinsælda og þá hafa trúarátökin í landinu stigmagnast. Þeim Bandaríkjamönnum fer að auki fjölgandi sem eru óánægðir með það hvernig forsetinn hefur tekið á stríðinu.

Á mánudag mun Bush hitta háttsetta embættismenn í utanríkisráðuneytinu og er það hluti af endurskoðun forsetans á hernaðaráætluninni. Þá mun hann eiga fund síðar um daginn í Hvíta húsinu með utanaðkomandi sérfræðingum í málefnum Íraks.

Á þriðjudag mun hann halda fjarfund með herforingjum sínum í Bagdad auk sendiherra Bandaríkjanna í Írak, Zalmay Khalilzad. Daginn eftir mun Bush heimsækja bandaríska varnarmálaráðuneytið til þess að ræða við embættismenn þar.

Bush er ekki á því að bandarískir hermenn verði kvaddir frá Írak snemma árs 2008 og að Bandaríkin hefji viðræður við Sýrland og Íran líkt og Íraksnefnd Bandaríkjaþings hefur lagt til að verði gert.

Bush er þó ekki alls ósammála öllum tillögum nefndarinnar. „Skýrsla Íraksnefndarinnar styður með afdráttarlausum hætti það hernaðarlega markmið sem við höfum sett okkur í Írak; þ.e. Írak sem geti stjórnað sér sjálf, framfleytt sér og varið sjálft sig,“ sagði Bush.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert