Hópar fólks dansa nú á götum úti í Santiago, höfuðborg Chile, eftir að fréttir bárust af því að Augusto Pinochet, fyrrum einræðisherra landsins, hefði látist í dag, 91 árs að aldri. Viðbrögð víða um heim hafa verið þau, að lýsa vonbrigðum yfir því að Pinochet skyldi látast áður en hægt var að rétta yfir honum vegna mannréttindabrota, sem framin voru í stjórnartíð hans.
Fólk þeytti bílflautur og safnaðist saman á Plaza Italia í miðborg Santiago eftir að fréttir bárust af láti Pinochets. Sumir veifuðu fánum Chile og dönsuðu af gleði. Sögðu margir, að þeir litu þannig á, að landið væri frelsað undan því oki, sem arfleifð Pinochets væri.
Pinochet var einræðisherra í landinu á árunum 1973 til 1990 og á þeim tíma voru þúsundir manna pyntaðar og myrtar. Mannréttindasamtökin Amnesty International sögðu í kvöld, að Chile mætti ekki hætta rannsókn á myrkasta kafla sögu landsins, þar sem mannréttindi hefðu verið fótum troðin, þótt Pinochet væri allur.