Tæplega tíundi hver Breti býr erlendis samkvæmt nýrri skýrslu sem birt var í dag. Talið er að rúmlega 5,5 milljónir Breta búi að staðaldri í útlöndum eða 9,2% af fólki með breskt ríkisfang. Talið er að um hálf milljón í viðbót búi í útlöndum hluta af árinu.
Samkvæmt skýrslunni, sem breska dagblaðið Independent greinir frá, er gert ráð fyrir því að brottfluttum Bretum eigi eftir að fjölga áfram á næstu fimm árum.
Þrír fjórðu þeirra sem hafa flutt frá Bretlandi búa í tíu löndum: Ástralíu, Spáni, Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku, Frakklandi, Þýskalandi og Kýpur.