Þúsundir Chilebúa flykktust út á götur Santiago í gær eftir að fréttir bárust af andláti Augusto Pinochet, fyrrum einræðisherra landsins, og kom til átaka milli lögreglu og um þúsund manna sem freistuðu þess að komast að forsetahöllinni. Lögreglan sprautaði vatni á fólkið og beitti táragasi til að dreifa úr mannfjöldanum.
Stuðningsmenn Pinochet syrgðu hann hins vegar fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hann eyddi seinustu dögum ævi sinnar. Pinochet var hershöfðingi sem tók sér vald einræðisherra í kjölfar valdaráns í Chile 1973. Í valdatíð Pinochet hurfu um 3.000 andstæðingar hans. Pinochet fær heiðursútför að sið hersins í Chile á morgun en þjóðarsorg verður ekki lýst yfir. Hins vegar verður flaggað í hálfa stöng við herbyggingar í landinu. BBC segir frá þessu.