Mikil reiði vegna barnatilræðanna á Gasa

Lík barnanna, sem skotin voru til bana í Gasaborg í …
Lík barnanna, sem skotin voru til bana í Gasaborg í morgun, sveipuð fána Fatah-samtakanna. AP

Mikil reiði ríkir á Gasasvæðinu eftir að þrír ungir synir háttsetts embættismanns Fatah-hreyfingarinnar voru skotnir til bana fyrir utan skóla sinn í morgun. Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, hefur fordæmt tilræðið og sagt það ljótan og ómennskan glæp. Þá hefur fjöldi fólks safnast saman á tilræðisstaðnum og hótað hefndum fyrir börnin. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Börnin þrjú, sem voru sex, sjö og átta ára, og einn vegfarandi létu lífið er vopnaðir menn létu skotum rigna yfir bifreið, sem börnin voru í. Hundruð skólabarna voru á staðnum er tilræðið var framið en níu skólar eru á svæðinu.

„Morðingjarnir vissu að Baha var ekki í bílnum því hann keyrði aldrei börn sín í skóla. Þeir gátu ekki komist að honum þannig að þeir drápu börnin hans,” segir ónefndur palestínskur embættismaður og vísar þar til Baha Balousheh, föður barnanna, en hann slapp ómeiddur úr banatilræði í september á þessu ári.

Balousheh starfar hjá palestínsku leyniþjónustunni og fyrir áratug stjórnaði hann aðgerðum sem miðuðu að því að brjóta Hamas-samtökin á bak aftur. Mikil spenna er á milli stuðningsmanna Fata-hreyfingarinnar og Hamas-samtakanna eftir að Frelsissamtök Palestínu (PLO) mælti með því að kosningar færu fram á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna en Abbas lýsti því nýlega yfir að hann hefði gefist upp á tilraunum sínum til að mynda þjóðstjórn Fatah og Hamas.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert