Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, taldi í dag upp Ísrael meðal þjóða sem byggju yfir kjarnorkuvopnum. Talskona Olmerts segir hann hafa nefnt Ísrael fyrir slysni en stjórnarandstöðuþingmenn hafa kallað eftir afsögn Olmerts. Forsætisráðherrann sagði þetta í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina N24 Sat1 þar sem hann ræddi um kjarnorkuáætlun Írana.
„Við höfum aldrei hótað nokkurri þjóð gereyðingu”, sagði Olmert í viðtalinu. „Íranar hóta opinberlega að þurrka Ísrael af kortinu. Getið þið haldið því fram að það sé sambærilegt, þegar þeir vilja eignast kjarnorkuvopn, lík þeim sem Frakkland, Bandaríkin, Rússland og Ísrael eiga.
Miri Eisin, talskona Olmerts segir að hann hafi ekki ætlað að telja Ísrael upp meðal kjarnorkuþjóða. Yuval Steinitz, þingmaður stjórnarandstöðunnar í Ísrael krafðist afsagnar Olmerts eftir ummælin og sagði þau óábyrg mismæli. Annar þingmaður, Yossi Beilin, sagði ummælin styrkja efasemdur um hæfi Olmerts til að gegna embætti forsætisráðherra.
Ísraelar hafa hingað til ekki viðurkennt berum orðum að eiga kjarnorkuvopn, en almennt er talið að þeir séu eina kjarnorkuþjóð Miðausturlanda og telja sérfræðingar að þeir eigi um 200 kjarnorkuflaugar.