Ráðstefna um helför gyðinga hófst í Íran í dag, en þar á að ræða hana frjálslega án þess að afneita henni, að sögn þeirra sem að henni standa. Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, telur helförina vera goðsögn og vill afmá Ísrael af yfirborði jarðar. Þetta hefur forsetinn oft sagt í ræðum. Það er Stjórnmála- og alþjóðastofnun utanríkisráðuneytis landsins sem stendur að ráðstefnunni sem 67 fræðimenn sækja frá 30 löndum. Stjórnvöld í Þýskalandi, Ísrael og Bandaríkjunum gagnrýna harðlega þá ákvörðun íranskra stjórnvalda að halda ráðstefnuna.
Forstöðumaður stofnunarinnar, Rasoul Mousavi, sagði við setningu ráðstefnunnar að ætlunin væri að veita fræðimönnum tækifæri í vísindalegu umhverfi til að tjá skoðanir sínar hömlulaust. Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans, mun lesa upp skilaboð frá Ahmadinejad forseta á ráðstefnunni.
Í Þýskalandi er bannað með lögum að neita því að helförin hafi átt sér stað. Um sex milljónir gyðinga voru teknar af lífi í helförinni að fyrirskipan Adolfs Hitlers.