Fjórir slösuðust er vopnaðir liðsmenn Hamas-samtakanna skutu á stuðningsmenn Fatah-hreyfingarinnar á sunnanverðu Gasasvæðinu í morgun en fólkið sem skotið var á var saman komið til að taka þátt í mótmælasamkomu vegna skotárásar sem varð þremur ungum börnum að bana í borginni í gær. Enginn hefur lýst ábyrgð á dauða barnanna á hendur sér en forsvarsmenn Fatah-hreyfingarinnar hafa sakað liðsmenn Hamas-samtakanna um tilræðið.
Saleh Hammad, einn af leiðtogum Fatah á svæðinu segir mótmælin hafa farið friðsamlega fram áður en skothríðin hófst en að þó hafi nokkur börn kastað steinum í Hamas-liðana. „Jafnvel þótt eitt eða jafnvel nokkur börn hafi misst stjórn á skapi sínu og kastað steinum þá er það ekki ástæða til að skjóta á þau," segir hann.
Drengirnir þrír voru synir Baha Balousheh, liðsmanns Fatah-hreyfingarinnar, sem er háttsettur innan palestínsku leyniþjónustunnar en fyrir tíu árum stjórnaði hann m.a. aðgerðum sem miðuðu að því að brjóta Hamas-samtökin á bak aftur.