Lars Barfoed, fjölskyldu- og neytendamálaráðherra Danmerkur, boðaði til blaðamannafundar í kvöld og tilkynnti að hann hefði ákveðið að segja af sér embætti. Hvasst hefur verið í kringum Barfoed að undanförnu eftir að í ljós kom að matvælaeftirlit í Danmörku hefur verið afar slakt.
Danski ríkisendurskoðandinn birti í dag skýrslu, þar sem tekið var undir gagnrýni á matvælaeftirlitið, og í kjölfarið tilkynnti Danski þjóðarflokkurinn, sem styður ríkisstjórnina, að hann bæri ekki lengur traust til ráðherrans, sem er fulltrúi Íhaldsflokksins í stjórninni. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, lýsti því hins vegar yfir í vikunni að hann bæri fullt traust til Barfoed.
Barfoed sagði í kvöld, að hann myndi biðjast lausnar á morgun. Hann gagnrýndi Danska þjóðarflokkinn harðlega og sagði afstöðu flokksins stríðsyfirlýsingu og hann ástundaði lýðskrum.
Troels Lund Poulsen, þingflokksformaður Venstre, sagði í kvöld að hann teldi ekki að afstaða Danska þjóðarflokksins til Barfoed væri tilefni til þess að boða til nýrra þingkosninga.