Fagnaðarlæti brutust út á áhorfendabekkjum færeyska lögþingsins í dag, þegar samþykkt var breyting á færeyskri löggjöf þannig að bannað verður að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Um var að ræða atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu um frumvarpið og er þriðja umræða eftir en afar sjaldgæft er að breyting verði á afstöðu þingmanna til mála milli umræðna.
Engin ákvæði hafa verið í færeyskum lögum, sem banna mismunum á grundvelli kynhneigðar og hafa fyrri tilraunir til að lögfesta slíkt ákvæði mistekist. Í þetta sinn ríkti óvissa um það fram á síðustu stundu, hvort meirihluti væri fyrir breytingunni en í atkvæðagreiðslunni í morgun var breytingin samþykkt með 17 atkvæðum gegn 13 en einn sat hjá. Tveir þingmenn, Páll á Reynatúgvu og Olav Enemoto, greiddu atkvæði með breytingunni og Sverre Midjord sat hjá en þeir höfðu áður verið andvígir málinu.
„Ég er afar ánægð. Þetta þýðir, að við höfum sent færeyska samfélaginu vísbendingu um, að færeyska lögþingið sættir sig ekki við að hægt sé að hæða og smána lítinn minnihlutahóp," sagði Annita á Fridriksmørk eftir atkvæðagreiðsluna en hún var önnur af tveimur flutningsmönnum frumvarpsins.