Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn Tim Johnson var skorinn upp í gær vegna heilablæðingar en meirihluti demókrata í öldungadeild veltur á því að hann lifi af þar sem þeir unnu deildina með einu þingsæti. Læknar segja of snemmt að segja til um hvort þurfi að skera hann aftur upp. Johnson reyndist vera með sjaldgæfan hjartagalla sem getur dregið menn til dauða. Aðgerðin mun þó hafa tekist vel.
Demókratar raðast í þingsæti eftir nokkrar vikur samkvæmt niðurstöðum þingkosninga sem fram fóru í haust. Ef Johnson getur ekki sinnt þingmennsku verður nýr maður skipaður í hans stað af ríkisstjóra Suður-Dakóta en sá er repúblikani og því allar líkur á því að hann skipi repúblikana. Þá yrðu 50 demókratar á móti 50 repúblikönum í deildinni. Repúblikanar myndu þá ná meirihluta því varaforseti Bandaríkjanna, repúblikaninn Dick Cheney, hefur úrslitaatkvæði í jöfnum atkvæðagreiðslum í öldungadeild.