Stjórnvöld í Kerala-héraði í suðurhluta Indlands hafa ákveðið að banna fólki að hrækja á almannafæri og snýta sér án þess að nota klút. Kerala er fyrsta héraðið á Indlandi sem setur slíkt bann en það er gert til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.
Ekki hefur verið ákveðið hve háar sektir brotlegir þurfa að greiða verði þeir uppvísir af því að hrækja eða snýta sér á almannafæri. Eins á að setja upp hrákadalla á almannafæri svo þeir sem nota munntóbak geti losað sig við sorann í hrákadalla í stað þess að hrækja honum á götuna sem nú er bannað samkvæmt lögum.