Vopnaðir Hamas-liðar gerðu skotárás á bústað Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, á Gaza-svæðinu í morgun. Munu árásarmennirnir hafa verið reiðir vegna meintrar tilraunar til að ráða háttsettan Hamas-mann af dögum. Abbas var á Vesturbakkanum þegar skotárásin var gerð, og ekki hafa borist fregnir af mannfalli.
Skömmu áður hafði verið skotið á bílalest Mahmouds Zahar, sem er háttsettur í Hamas og utanríkisráðherra í palestínsku heimastjórninni. Stuðningsmenn Hamas sögðu árásina hafa verið tilraun til að ráða Zahar af dögum, og liðsmenn Hamas og Fatah hafa haldið áfram að skiptast á skotum á götum Gaza-borgar.