Fyrstu tölur, sem birtar hafa verið úr sveitarstjórnakosningum í Íran benda til þess, að andstæðingar Mahmouds Ahmadinejads, forseta landsins, hafi farið með sigur af hólmi í mörgum helstu borgum og bæjum landsins.
Tölur, sem íranska innanríkisráðuneytið birti, benda til þess að stuðningsmönnum forsetans hafi að mestu leyti mistekist að ná meirihluta en hófsamir frambjóðendur, sem styðja Mohammed Bagher Qalibaf, borgarstjóra í Teheran, hafi haft betur.
Verði þetta úrslitin eru þau áfall fyrir Ahmadinejad, sem farið hefur mikinn gegn Ísrael og fylgt harðlínustefnu í kjarnorkumálum. Svo virðist einnig, að fylgi við hófsöm stjórnmálaöfl sé að aukast á ný en mörgum af sterkustu frjálslyndu frambjóðendunum var bannað að bjóða sig fram í þingkosningum árið 2004.
Samkvæmt tölunum, sem birtar voru í morgun, er útlit fyrir að stuðningsmenn Qalibafs fái 7 af 15 sætum í borgarstjórn Teheran og umbótasinnar fái 4 sæti að auki. Stuðningsmenn forsetans fá 3 sæti og óháður frambjóðandi eitt.
Þá var einnig kosið í sérfræðiráð landsins en það er stofnun þar sem 86 háttsettir klerkar sitja og sem hefur eftirlit með æðsta leiðtoga landsins og kýs eftirmann hans. Þar tryggði Hashemi Rafsanjani, fyrrum forseti Írans, sem tapaði forsetakosningunum fyrir Ahmadinejad árið 2005, sér sæti í Teheran. Rafsanjani fékk einna flest atkvæði en Mohammad Taqi Mesbah Yazdi, sem talinn er andlegur leiðtogi forsetans, var kosinn með naumindum.