Ungbarn var nýlega sett í gegn um gegnumlýsingartæki sem ætlað er fyrir handfarangur á flugvellinum í Los Angeles í Bandaríkjunum. Barnið var í fylgd spænskumælandi ömmu sinnar og liggur ekki ljóst fyrir hvers vegna hún setti barnið í körfu, sem ætlað var fyrir handfarangur, og síðan körfuna á færibandið sem liggur í gegn um gegnumlýsingartækið. Þó er talið að ruglingur og tungumálaörðugleikar hafi átt þátt í því. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Samkvæmt því sem fram kemur í blaðinu Los Angeles Times urðu öryggisverðir á vellinum ekki varir við barnið fyrr en þeir sáu það í gegnumlýsingartækinu. Barnið var þá tekið úr kassanum og því komið undir læknishendur. Ekkert virtist þó ama að barninu og hélt amman áfram för sinni með barnið en för þeirra var heitið til Mexíkóborgar.
Atvikið mun þó hafa vakið upp spurningar um það hvort rétt sé staðið að framkvæmd öryggiseftirlits á alþjóðaflugvöllum, þar sem farþegar geti sent hvað sem er inn í gegnumlýsingartæki.
„Ef ungbarn getur farið í gegn um gegnumlýsingartækið hvað fleira getur þá farið þar í gegn,” segir Nico Melendez, talsmaður bandaríska ferðaöryggiseftirlitsins TSA, í viðtali við Los Angeles Times. „Við höfum hins vegar ekki mannskap til að leiðbeina fólki áður en það fer í gegn um öryggiseftirlitið.”