Einn áhrifamesti klerkur súnníta í Líbanon varaði við því í dag að hrekist ríkisstjórn Fuad Siniora, forsætisráðherra landsins, frá völdum, muni það leiða til stjórnleysis og átaka ólíkra trúarhópa í landinu. „Það mun ekki önnur ríkisstjórn taka við í Líbanon heldur mun upplausn ríkja og trúarátök brjótast út falli ríkisstjórn Siniora,” sagði klerkurinn Mohammed Rashid Qabbani eftir að hafa átt fund með Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, í dag.
„Starfsemi alþjóðadómstólsins verður að hafa sinn gang og hann að dæma þá sem sakaðir hafa verið um aðild að tilræðinu við Rafiq Hariri, fyrrum forsætisráðherra, þar sem það var glæpur sem á sér ekkert fordæmi,” sagði hann. „Það sem er að gerast í Líbanon er tilraun til að koma í veg fyrir að dómstóllinn framfylgi skyldum sínum.”