Leiðtogi uppreisnarhóps í Írak, sem nýtur stuðnings Al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, segir að bandaríski herinn verði látinn í friði hafi hann sig á brott innan mánaðar og skilji stærstu vopn sín eftir. Tilboðið er á hljóðupptöku sem sett var á netið. „Við hvetjum Bush (Bandaríkjaforseta) til að sóa ekki þessu sögulega tækifæri,“ segir sá sem talar. Menn þykjast þar þekkja Abu Omar al-Baghadi.
Baghadi er höfuðpaur hóps sem kallar sig Íslamska ríkið í Írak. Al-Qaeda lýsti yfir stuðningi við þann hóp í október s.l. Upptakan var sett á tvo vefi sem al-Qaeda og aðrir uppreisnarhópar í Írak nota. Baghadi segist ætla að bíða í tvær vikur eftir svari. Ekki verði ráðist á bandaríska hermenn við brottflutninginn. Sky segir frá þessu.