Bandaríski herinn greindi frá því í dag að fimm hermenn hefðu fallið í Írak í gær og í dag. Fjórir hermannanna féllu í bardaga í Anbar-héraði sem þykir hættulegasti hluti landsins fyrir bandaríska hermenn vegna fjölda uppreisnarmanna súnníta þar. Fimmti hermaðurinn var drepinn vestur af Bagdad í dag og annar særðist. 71 bandarískur hermaður hefur fallið í Írak í desembermánuði einum saman og hafa nú 2.690 fallið frá því ráðist var inn í landið árið 2003.
Þrýstingurinn eykst því jafnt og þétt á George W. Bush Bandaríkjaforseta að kalla heim 135.000 manna herlið sitt í Írak. Robert Gates, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur nýlokið heimsókn til Íraks þar sem ætlunin var að finna lausn á öryggismálum í landinu. Bush ætlar nú að halda fjölda funda um ástandið í Írak og kynna nýja hernaðaráætlun í byrjun næsta árs, að sögn talsmanns Hvíta hússins, Dana Perino.