Tyrkneskur fyrrverandi sendiherra segir í viðtali sem við hann birtist í dag að Saddam Hussein hafi á níunda áratugnum sóst eftir aðstoð Tyrkja við að „sækja að Kúrdum úr norðri og suðri og leysa vandamálið endanlega”. Þetta sagði Nuzhet Kandemir, sem var erindreki Tyrkja í Bagdad á þeim tíma, í viðtali við dagblaðið Millyet í dag.
Í viðtalinu segir Kandemir að þáverandi forsætisráðherra Tyrkja, Turgut Ozal, hafi alfarið hafnað hugmyndinni og sagt að Tyrkir legðust gegn slíkum aðgerðum, myndu ekki starfa með Írökum að þeim með nokkrum hætti og myndu fordæma þær.
Kandemir talar í viðtalinu um minnisblað frá yfirmanni í íraska hernum sem saksóknarar lögðu fram við réttarhöldin yfir Saddam Hussein þar sem íröskum herliðsforingjum er skipað að ,,starfa með Tyrkjum samkvæmt samkomulagi við þá” og elta uppi flóttamenn.