Fordæmdi innbyrðis átök Palestínumanna

Mahmud Abbas ræðir við Michel Sabbah í miðnæturmessu í kaþólsku …
Mahmud Abbas ræðir við Michel Sabbah í miðnæturmessu í kaþólsku kapellunni í Fæðingarkirkjunni í Betlehem. Reuters

Michel Sabbah, patríarki kaþólsku kirkjunnar í Jerúsalem, fordæmdi innbyrðis átök Palestínumanna þegar hann flutti prédikun í miðnæturmessu í Betlehem á Vesturbakkanum í nótt. Mahmud Abbas, forseti Palestínumanna, var viðstaddur athöfnina.

„Nú þegar jólin eru hringd inn eru erfiðleikarnir miklir og það er aukið á þá með innbyrðis deilum," sagði Sabbah. „Þessi bræðraátök leiða til fleiri dauðsfalla og nýs oks, sem við leggjum á okkur sjálf."

Sabbah er fyrsti Palestínumaðurinn sem gegnir embætti patríarka rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Jerúsalem.

Sabbah sagði við Abbas: „Þú ert velkominn ásamt öllum þínum félögum." Hann hvatti síðan alla stjórnmálaleiðtoga á svæðinu til að læra að verða friðflytjendur en ekki stríðsherrar, veita líf en ekki dauða og átökin í Miðausturlöndum hefðu staðið of lengi yfir. „Það er löngu tímabært að leiðtogar okkar bindi enda á þetta langa tímabil dauðans í sögu okkar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert