Stjórnmálaráð Túrkmenistan hefur valið sex frambjóðendur í forsetakosningum, sem eiga að fara fram í landinu 11. febrúar. Meðal frambjóðendanna sex er Gurbungali Berdjmukhamedov, núverandi bráðabirgðaforseti landsins, þótt stjórnarskrá Túrkmenistan mæli svo fyrir, að sá sem gegni forsetaembætti til bráðabirgða geti ekki boðið sig fram í forsetakosningum.
Í stjórnmálaráðinu sitja um það bil 2500 manns, sem ýmis voru kosnir eða skipaðir í ráðið. Berdjmukhamedov sagði í síðustu viku, að forsetakosningarnar yrðu haldnar í lýðræðislegum grundvelli, sem hinn mikli leiðtogi Sapurmúrat Níjasov hefði lagt. Var þessi yfirlýsing talin til marks um, að eftirmenn Níjasovs ætli ekki að hafa frjálsar kosningar en Níjasov stýrði Túrkmenistan með harðri hendi í 21 ár þar til hann lést í síðustu viku.
Stjórnmálaráðið breytti stjórnarskrá landsins í dag þannig að Berdjmukhamedov gæti tekið þátt í forsetakosningunum. Fyrr í dag valdi ráðið hugsanlega frambjóðendur. Tveir fulltrúar voru tilnefndir frá hverju fimm héraða landsins og tveir frá höfuðborginni Ashgabat. Fyrstu fjórir frambjóðendurnir voru lítt þekktir aðstoðarráðherrar og héraðsembættismenn.
Aðeins einn löglegur stjórnmálaflokkur er í Túrkmenistan og hafa margir stjórnarandstæðingar hrakist úr landi. Hafa sumir þeirra lýst því yfir, að þeir ætli að fara aftur til Túrkmenistan.