660 Palestínumenn hafa fallið í aðgerðum Ísraelshers það sem af er þessu ári en það eru rúmlega þrisvar sinnum fleiri Palestínumenn en féllu í aðgerðum hersins á árinu 2005 er herinn felldi 197 Palestínumenn. Á sama tíma dró verulega úr fjölda Ísraela sem féllu í árásum Palestínumanna. Þetta kemur fram í ársskýrslu ísraelsku mannréttindasamtakanna B'Tselem sem greint er frá á fréttavef Ha’aretz.
Á árinu 2006 féllu 23 Ísraelar, þar af 17 óbreyttir borgarar og eitt barn í árásum Palestínumanna. Árið 2005 féllu hins vegar 50 Ísraelar í árásum Palestínumanna.
Fram kemur í skýrslunni að 4005 Palestínumenn og 701 Ísraelar hafi látið lífið í árásum og átökum þeirra frá því síðari uppreisn Palestínumanna braust út í september árið 2000.
Þá kemur þar fram að 322 af þeim 660 Palestínumönnum sem létu lífið í hernaðaraðgerðum Ísraela hafi ekki ógnað ísraelskum hermönnum er þeir voru felldir og að 22 þeirra hafi fallið í árásum sem var beint gegn þeim persónulega. 141 þeirra Palestínumanna sem féllu á árinu voru börn að aldri en um helmingur allra Palestínumanna sem féllu í aðgerðum Ísraelshers féllu á Gasasvæðinu síðari hluta árs eftir að herskáir Palestínumenn tóku ísraelska hermanninn Gilad Shalit í gíslingu. Á árinu jafnaði Ísraelsher einnig 292 palestínsk hús við jörðu en íbúar þeirra voru 1.769 talsins. 95% þessara húsa stóðu á Gasasvæðinu og voru eigendur 80% þeirra varaðir við áður en herinn hófst handa við niðurrif húsanna.