Gerald R. Ford, fyrrum Bandaríkjaforseti, viðurkenndi í viðtali við bandaríska blaðamanninn Bob Woodward á síðasta ári, að löng vinátta hans og Richards Nixons, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefði haft áhrif á þá ákvörðun hans að náða Nixon á sínum tíma.
„Ég leit á hann sem vin minn og ég mat samband okkar mikils. Ég hikaði ekki við að náða hann, vegna þessa sambands og ég vildi ekki að vinur minn bæri þetta brennimerki," sagði Ford við Woodward, að því er kemur fram í blaðinu Washington Post.
Þeir Ford og Woodward ræddu saman á síðasta ári en Ford óskaði eftir því, að viðtalið myndi ekki birtast fyrr en að honum látnum. Ford lést á þriðjudagskvöld, 93 ára að aldri.
Ford hefur áður sagt, að hann hafi ekki ákveðið að náða Nixon vegna persónulegs sambands þeirra heldur vegna þess að það hafi verið nauðsynlegt til að bandaríska þjóðin gæti komist yfir Watergatehneykslið.
Nixon og Ford höfðu þekkst frá því á fimmta áratug síðustu aldar en það var á fárra vitorði að þeir voru nánir vinir. Nixon gerði Ford að trúnaðarmanni sínum þegar Watergatehneykslið kom upp en þá var Ford leiðtogi þingflokks Repúblikanaflokksins í Bandaríkjaþingi. Nixon útnefndi Ford síðar varaforseta.
„Ég held að Nixon hafi talið, að ég væri sá eini í þinginu sem hann gat treyst," segir Ford í viðtalinu.
Í gær birti Washington Post hluta úr viðtali þeirra Fords og Woodwards þar sem fram kom, að Ford var ósammála þeirri ákvörðun Georges W. Bush, forseta, og samstarfsmanna hans að ráðast inn í Írak.