Reykingabann á veitingahúsum verður innleitt í Belgíu á mánudaginn og fylgir það í kjölfar margra Evrópulanda sem hafa látið banna reykingar á almannafæri. Samtök sem berjast gegn reykingum í Belgíu segja að lögin gangi ekki nógu langt þar sem enn er leyfilegt að reykja á börum og kaffihúsum en eigendur veitingahúsa hafa kvartað undan því að bannið komi til með að hafa áhrif á afkomu þeirra.
Samkvæmt nýju lögunum verður bannað að reykja í sjálfum veitingastaðnum og einungis verður hægt að kveikja í tóbaki í sérstökum reykherbergjum sem eru lokuð svo að reykur komist ekki inn á þau svæði þar sem matur er borinn fram.
Heilbrigðisráðherra Belgíu hefur heitið því að 25 þúsund athuganir verði gerðar á árinu til að athuga hvort banninu sé framfylgt og að sektirnar hljóði upp á allt að 160 þúsund krónum.
Írland, Ítalía, Malta, Noregur, Svíþjóð og Skotland eru lönd þar sem núþegar er bannað að reykja á börum og veitingastöðum og víðar eru ýmis konar reykingabönn í gildi.
Englendingar munu fylgja í kjölfarið síðar á árinu og Frakkland um næstu áramót. Á Íslandi mun reykingabann á veitingastöðum, börum og kaffihúsum taka gildi 1. júní 2007.