Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa skipst í tvo flokka í skoðunum sínum á aftöku Saddams Hussein í morgun og eru ekki á eitt sáttir hvort hún hafi verið skref í átt til friðar eða orki sem hvatning til frekari átaka í Miðausturlöndum. George W. Bush forseti Bandaríkjanna sagði að Hussein hefði hlotið sanngjarna málsmeðferð og það sama réttlæti sem fórnarlömb hans sjálfs hefðu hlotið.
Utanríkisráðherra Bretlands, Margaret Beckett sagði að Saddam Hussein hefði nú svarað fyrir hluta af þeim hrottalegu glæpum sem hann framdi gegn írösku þjóðinni en bætti við að hún fordæmdi dauðarefsinguna og slíkt hið sama hafa margir leiðtogar Evrópulanda gert sem og mannréttindasamtök.