George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði við útför Geralds Fords, fyrrum forseta, í Washington í dag að Ford hefði komið fram sem græðari á úrslitastund í sögu bandarísku þjóðarinnar. Meðal viðstaddra við útförina voru þrír fyrrum Bandaríkjaforsetar, þeir Jimmy Carter, George Bush og Bill Clinton, Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra og Nancy Reagan, ekkja Ronalds Reagans.
„Í Ford forseta sá heimurinn þá besta í Bandaríkjunum og Bandaríkin fundu mann, sem með hreinlyndi sínu og leiðtogahæfileikum græddi sár og sefaði þjóðina á úrslitstundu," sagði Bush.
Útförin fór fram í dómkirkjunni í Washington í dag. Kista Fords var borin í kirkjuna sveipuð bandaríska fánanum. Ford verður jarðsettur á morgun í Ford safninu í Grand Rapids í Michican.