Fékk 40 tonna mjólkurbíl inn í stofuna

Mjólkurbíllinn fór í gegnum tvö hús og stöðvaðist síðan í …
Mjólkurbíllinn fór í gegnum tvö hús og stöðvaðist síðan í stofunni hjá John Ashman. AP

John Ashman sat á gamlársdag í hægindastól og las bók í stofunni heima hjá sér í bænum Waipawa á Nýja-Sjálandi. Skyndilega heyrðist mikill hávaði og 40 tonna mjólkurbíll birtist þar sem stofuveggurinn hafði áður verið. Ashman slapp með fótbrot og taugaáfall en mjólkurbílstjórinn slapp ómeiddur. Hann mun hafa verið að borða sleikibrjóstsykur þegar honum svelgdist á með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á bílnum.

Ashman sagði við nýsjálensk dagblöð, að hann hefði setið í stólnum þegar Zak, hundurinn hans, ókyrrðist og hljóp út. Síðan heyrðust brak og brestir og Ashman sá mjólkurbílinn út um gluggann. Hann gat hins vegar ekki forðað sér þar sem hann hafði ekki náð sér eftir hælbrot á síðasta ári.

„Ég vildi forða mér en ég gat það ekki og því sat ég bara kyrr. Ég sá grillið á bílnum og hugsaði með mér: Nú er þetta búið. Ég sá ekki einu sinni lífinu bregða fyrir í endurliti, ég sat bara þarna og beið þess sem verða vildi."

Mjólkurbíllinn fór fyrst í gegnum tvö önnur hús, bæði mannlaus, áður en hann skall á hús Ashmans og fór í gegnum svefnherbergi, baðherbergi og anddyri áður en hann stöðvaðist í stofunni. Ashman kastaðist aftur fyrir sig þegar bíllinn lenti á honum. Hann fótbrotnaði en slapp að öðru leyti við meiðsli.

Öll húsin þrjú, sem mjólkurbíllinn ók á, eru ónýt. Ashman segist þó ekki bera kala í brjósti til mjólkurbílstjórans. „Ef manni svelgist á þá er erfitt að stjórna bíl. Við ætlum raunar að fara saman og kaupa okkur lottómiða," sagði hann.

John Ashman á sjúkrahúsinu í gær.
John Ashman á sjúkrahúsinu í gær. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert