Írösk stjórvöld fyrirskipa rannsókn á myndatökum af aftöku Saddams

Íraska ríkisstjórnin hefur fyrirskipað, að fram fari rannsókn á því hvers vegna myndir voru teknar af aftöku Saddams Husseins, fyrrum forseta Íraks, með myndavélarsímum. Myndir af aftökunni hafa valdið mikilli reiði í röðum súnní-múslima.

Reutersfréttastofan hefur eftir háttsettum íröskum embættismanni, að sendiherra Bandaríkjanna í Írak hafi reynt að sannfæra Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, um að betra væri að bíða með aftöku Saddams í að minnsta kosti hálfan mánuð en Saddam var tekinn af lífi fjórum dögum eftir að hæstiréttur Íraks staðfesti dauðadóm yfir honum.

Upptakan úr myndavélarsímanum sýnir, að þegar Saddam var leiddur að gálganum fyrir sólarupprás á sunnudagsmorgun gerðu nokkrir viðstaddra hróp að dauðamanninum. Sami al-Askari, ráðgjafi íraska forsætisráðherrans, segir að þetta hafi verið óviðeigandi og sé rannsókn hafin á málinu.

Opinbert myndband frá aftökunni sýndi böðulinn ræða við Saddam þegar snaran var sett um háls hans og Saddam stendur rólegur og þögull. En á símaupptökunni heyrast verðir m.a. hrópa: Farðu til helvítis.

Reutersfréttastofan hefur eftir Sami al-Askari, að rannsakað verði hvernig vörðum hafi tekist að smygla myndavélarsíma inn í aftökuherbergið en samkomulag hafi verið um það að myndsímar yrðu ekki þar inni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert