Litlu munaði að aftöku Saddams yrði frestað

Úr myndbandinu af aftöku Saddams.
Úr myndbandinu af aftöku Saddams. Retuers

Litlu munaði að aftöku Saddams Husseins yrði frestað vegna óláta viðstaddra, að því er fréttavefur Sky hefur eftir íröskum saksóknara, Munkith al Faroon.

Á myndbandi af aftökunni, sem tekið var með farsíma og dreift á Netinu, má heyra Faroon biðja viðstadda að hafa hljótt, og hóta að ganga út ef háðsglósum í garð Saddams linni ekki.

Hefði hann horfið af vettvangi hefði orðið að fresta aftökunni þar sem írösk lög kveða á um að fulltrúi saksóknaraembættisins skuli vera viðstaddur aftöku.

Faroon, sem var einn saksóknaranna við réttarhöldin yfir Saddam, tjáði AP að hann vissi til þess að tveir háttsettir embættismenn hafi verið með farsíma með sér er aftakan fór fram. Það hafi verið óheimilt.

Írösk stjórnvöld hafa hafið opinbera rannsókn á myndbandsupptökunni og framkomu nokkurra viðstaddra er „hrópuðu óviðeigandi slagorð“, að sögn ráðgjafa Nouris Malikis forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert