Segir kosningaáætlun Giulianis hafa verið hnuplað úr farangri

Rudy Giuliani.
Rudy Giuliani.

Talsmaður Rudys Giulianis, væntanlegs forsetaframbjóðanda repúblíkana, sagði í dag að 140 blaðsíðna áætlun um kosningabaráttu hans hefði ekki gleymst á hótelherbergi, eins og fullyrt hefur verið, heldur hefði hún verið tekin úr flugfarangri og ljósrituð. Þetta hefði verið „óþverrabragð“.

Bandaríska blaðið New York Daily News birti í dag kafla úr áætluninn, m.a. um fyrirhugaða fjáröflun upp á 100 milljónir dollara á þessu ári, og sagði að heimildamaður hefði fundið plaggið á hótelherbergi þar sem það hefði greinilega gleymst.

Aðstoðarkona Giulianis sagði í dag að skjalið hefði verið í tösku sem hefði glatast á ferðalagi en síðan komið í leitirnar eftir ítrekaðar fyrirspurnir. Þá hafi skjalið verið í töskunni og þar sem starfsmaður Giulianis hefði alltaf haft auga með töskunni nema þennan tíma sem hún var týnd væri ljóst að plagginu hefði verið hnuplað og afrit tekið af því.

Reyndar væri þetta ekki sérlega mikilvægt plagg, aðeins hugmyndir sem hafi verið settar á blað fyrir rúmum þrem mánuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert