Fóstureyðingarlyf bönnuð í kínversku héraði

Sú stefna hefur verið lengi við lýði í Kína, að …
Sú stefna hefur verið lengi við lýði í Kína, að hver hjón eigi aðeins að eignast eitt barn. Reuters

Héraðið Henan í miðhluta Kína hefur bannað sölu á fóstureyðingarlyfjum í þeim tilgangi að jafna kynjahlutfall barna sem fæðast í héraðinu. Samkvæmt nýju lögunum verða þeir sem verða uppvísir að því að selja slík lyf sektaðir um 20.000 yuan eða um 180.000 krónur. Nærri sex drengir fæðast fyrir hverjar fimm stúlkur í Kína vegna barneignastefnu stjórnvalda.

Markvisst er unnið að því að fækka Kínverjum, einkum í þéttbýlum sveitum landsins og hafa stjórnvöld þá stefnu að hvert par eignist aðeins eitt barn. Þetta hefur leitt til þess að margir Kínverjar láta eyða stúlkufóstrum þar sem æskilegra þykir af fjárhagsástæðum að eignast drengi.

Löglegt er að eyða fóstri ef um alvarlegan sjúkdóm er að ræða eða ef meðganga stofnar lífi móðurinnar í hættu, þá mega mæður láta eyða fóstri ef þær hafa skilið eða misst maka sinn.

118,4 drengir fæðast fyrir hverjar 100 stúlkur í Henan héraði, og 117 á hverjar 100 í landinu öllu. Samkvæmt rannsókn sem franska lýðfræðirannsóknarstofnunin hefur gert munu 25 milljónir kínverskra karla verða einhleypir og án vonar um að eignast konu árið 2015 ef fer fram sem horfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert