Myndsímaupptökur af aftöku Saddams Husseins, fyrrum Íraksforseta, sem teknar voru á farsíma eru án efa umtöluðustu og áhrifamestu upplýsingarnar sem borist hafa frá Írak frá því myndir af misþyrmingum bandarískra hermanna á föngum í Abu Ghraib fangelsinu voru birtar árið 2004. Myndirnar þykja einnig táknrænar fyrir það mikilvægi sem farsímamyndavélar hafa öðlast í Írak sem áróðurstæki, frelsis- og sjálfstæðistákn. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Farsímamyndavélar hafa einnig farið með stórt hlutverk í baráttu íraskra uppreisnarmanna sem að stórum hluta hefur farið fram á Netinu. Þannig hafa myndbönd, sem sýna hrottalegar aftökur, og birtar hafa verið á Netinu yfirleitt verið teknar á farsíma.
Ólíkt því sem verið hefur í flestum öðrum löndum byggist nýja upplýsingabyltingin í Írak á farsímanum fremur en Netinu en af 27 milljónum íbúa landsins hefur einungis 0,1% aðgang að Netinu. Til samanburðar hafa um 10% íbúa Írans aðgang að Netinu.
Frá innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írsk árið 2003 hefur símalínum í landinu fjölgað úr 1,2 milljón jarðsímalínum í 4,6 milljónir jarð- og farsímalínur og starfsfólk á skrifstofu BBC í Bagdad segir greinilega aukningu hafa orðið í notkun farsíma til að dreifa ofbeldisfullum áróðri eftir sprengjuárás á mosku sjíta í Samarra í febrúar á síðasta ári.
Þá sagði farsímasali í Bagdad blaðamanni AFP fréttastofunnar daginn eftir að Saddam Hussein var tekinn af lífi að hann seldi bæði aðgang að hinni óopinberu myndsímaupptöku af aftökunni og DVD diska með henni.
Simon Henderson, sem starfar hjá Washington Institute for Near East Policy og hefur skrifað bók um Saddam Hussein, segir sölu á myndbandinu minna á það að í valdatíð Saddams hafi myndbönd sem sýndi pyntingar og aftökur stjórnarandstæðinga verið seldar á götum úti.
Söguleg mistök á aftökustaðnum og í aðdraganda aftökunnar
Í ljósi þeirra miklu og þekktu áhrifa sem myndbandsupptökur hafa í áróðursstríðinu í Írak vekur það furðu að írösk yfirvöld skuli ekki hafa komið í veg fyrir að óritskoðaðar myndir af aftöku Saddams skyldu leka út en Sami al-Askari, ráðgjafi Nouri Maliki, forsætisráðherra Íraks, sagði eftir að fréttist af myndbandsupptökunni að samkomulag hefði verið gert um það að ekki yrðu teknar myndir á myndavélasíma í aftökuklefanum.
Bandaríski fjölmiðlafræðingurinn Danny Schechter segir greinilegt að söguleg mistök hafi átt sér stað bæði á aftökustaðnum og við þá ákvarðanatöku sem leiddi til aftökunnar. Þá segir hann kæruleysi íraskra yfirvalda í málinu til marks um það að þau hafi ekki viljað hlusta á ráðleggingar og verið reiðubúin til að hætta á stigmögnun í trúflokkastríðinu í landinu.
Bandaríski hernaðarsérfræðingurinn Anthony Cordesman, sem starfar hjá Centre for Strategic and International Studies, sefgir hins vegar erfitt að koma í veg fyrir upptökur á faldar myndavélar. „Þetta er ekki eitthvað sem yfirvöld geta komið í veg fyrir nema þau hafi mikla reynslu í slíku og það hefur þessi stjórn greinilega ekki,” segir hann. Þá bendir hann á að aftakan hafi þurft að fara fram með skömmum fyrirvara til að koma í veg fyrir að stuðningsmenn Saddams fengju veður af henni og staðsetningu hennar í tíma til að skipuleggja hryðjuverk eða björgunaraðgerðir og að það hafi greinilega sett mark sitt á framkvæmd hennar. „Þetta eru stríðstímar og íraska ríkisstjórnin er undir miklu álagi auk þess sem vestræn gildi eru ekki, svo vægt sé til orða tekið, í hávegum höfð í þessum heimshluta," segir hann.
Simon Henderson bendir einnig á að rekja megi löngun Íraka til að sjá aftöku Saddams til þeirrar ofbeldismenningar sem hann hafi sjálfur skapað í valdatíð sinni en Saddam er m.a. sagður hafa farið með syni sína Uday og Qusay til að horfa á pyntingar.
Myndskeið: Segja óviðkomandi menn hafa verið viðstadda aftökuna
Myndskeið: Aftöku Husseins næstum frestað
Fleiri fréttir: Saddam Hussein tekinn af lífi