Lykilmaður í stjórnsýslu Íraks og tvær sjónvarpsstöðvar í Írak hafa greint frá því að samstarfsmenn Saddams Husseins, fyrrverandi forseta Íraks verði teknir af lífi á morgun. Barzan al-Tikriti, fyrrverandi yfirmaður írösku leyniþjónustunnar og hálfbróðir Husseins, og Awad Ahmed al-Bandar, fyrrverandi yfirmaður byltingardómsstólsins, voru auk Saddams dæmdir til dauða þann 5. nóvember sl. fyrir glæpi gagnvart mannkyninu. Saddam Hussein var tekinn af lífi þann 30. desember.
Saddam og hinir sakborningarnir voru dæmdir fyrir fjöldamorð á sjítum í bænum Dujail 1982 en þau voru framin eftir að reynt var að ráða Saddam af dögum. Taha Yassin Ramadan, fyrrverandi varaforseti, var dæmdur í lífstíðarfangelsi, þrír fyrrverandi yfirmenn Baath-flokksins voru dæmdir í 15 ára fangelsi og sá fjórði var sýknaður af morðunum.