Skjöl um slæma meðferð fanga í Guantánamo fangabúðunum birt

Félagsmenn mannréttindasamtakanna Amnesty International í Þýskalandi mótmæla meðferð fanga í …
Félagsmenn mannréttindasamtakanna Amnesty International í Þýskalandi mótmæla meðferð fanga í Guantanamo fangabúðum Bandaríkjahers. Reuters

Bandarísk yfirvöld birtu í morgun skjöl þar sem fram koma vitnisburðir um slæma meðferð fanga í Guantánamo fangabúðunum og harðneskjulegar aðferðir bandarísku leyniþjónustunnar við yfirheyrslur. Í skjölunum kemur m.a. fram að andlit fanga hafi verið vafið í límband eftir að hann fór með vers úr Kóraninum og að annar hafi getað rifið hárið af höfði sér eftir að hafa verið lokaður inni í brennheitu herbergi klukkustunum saman.

Þá kemur þar fram að einn fanganna hafi haldið því fram að kvenvörður hafa farið höndum um kynfæri sín og makað tíðablóði í andlit sér. Annar fangavörður mun hafa hreykt sér af því að hafa klætt sig upp sem kaþólskan prest og skírt fanga.

Um er að ræða skjöl sem bandaríska alríkislögreglan FBI safnaði árið 2004 en við söfnun skjalanna voru m.a. 493 fangaverðir spurðir að því hvort þeir hefðu orðið vitni að óviðeigandi meðferð fanga. 26 þeirra svöruðu og í vitnisburði nokkurra þeirra kemur fram að yfirmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins, þeirra á meðal Donald H. Rumsfeld, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hafi samþykkt umræddar yfirheyrsluaðferðir.

Umrædd skjöl voru birt eftir að dómari féllst á kröfu bandarísku mannréttindasamtakanna American Civil Liberties Union um birtingu þeirra en samtökin undirbúa nú málshöfðun gegn Rumsfeld og öðrum bandarískum ráðamönnum fyrir hönd fyrrum fanga Bandaríkjahers.

Joe Carpenter, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins Pentagon segir þær ásakanir og staðhæfingar sem fjallað er um í skjölunum ekki vera nýjar á nálinni en að rannsókn ráðuneytisins hafi ekki leitt neitt í ljós sem bendi til þess að manréttindabrot hafi verið heimiluð af ráðamönnum.

George W. Bush Bandaríkjaforseti undirritaði lög í október á síðasta ári sem heimils harkalegar yfirheyrsluaðferðir en ekki er skilgreint þar í hverju slíkar aðferðir felast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert