Hefta líkamlegan þroska fatlaðrar dóttur sinnar

Foreldrar níu ára gamallar fatlaðrar bandarískrar stúlku sæta nú harðri gagnrýni eftir að greint var frá því opinberlega að þau hefðu látið framkvæma skurðaðgerðir á stúlkunni til að hefta þroska hennar og gefa henni hormóna til að draga úr líkamlegum vexti hennar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Stúlkan sem heitir Ashley, hefur andlegan þroska þriggja mánaða barns og getur hvorki talað né gengið. Þá hreyfir hún sig afar lítið og því gengur hún undir gælunafninu „koddaengillinn” innan fjölskyldunnar. Fyrir þremur árum létu foreldrar hennar fjarlægja úr henni legið og brjóstkirtlana auk þess sem þau hófu að gefa henni hormóna til að draga úr vexti hennar.

Greint var frá meðferðinni í bandarísku læknatímariti á síðasta ári og þann 1. janúar svöruðu foreldrar stúlkunnar þeirri gagnrýni, sem komin hefur fram á meðferðina, á bloggsíðu sinni. Foreldrarnir, sem núa í Seattle en koma ekki fram undir fullu nafni, hafna því alfarið að ákvarðanir þeirra séu teknar með það fyrir augum að auðvelda þeim umönnun stúlkunnar og segja þær alfarið teknar með það að markmiði að auka lífsgæði stúlkunnar.

Búast má við að hormónagjöfin leiði til þess að stúlkan verði 20 til 40% lægri þegar hún verður fullvaxin en hún myndi verða fengi hún ekki umræddar hormónagjafir.

Foreldrarnir vísa einnig á bug staðhæfingum um að gengið sé á virðingu stúlkunnar. Hún sé ekki fær um að upplifa sjálfsvirðingu og auk þess finnist þeim ekki meiri virðing í því fólgin að fyrir einstakling með andlegan þroska ungabarns að hafa líkama fullvaxta, frjórrar konu en stúlkulíkama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert