Nancy Pelosi var í kvöld kjörin forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og er hún fyrsta konan í sögunni, sem gegnir því embætti. Pelosi, sem er þingmaður Demókrataflokksins í Kalíforníu, fékk 223 atkvæði af 435 þegar kosið var í embætti í þingdeildinni í dag. Samkvæmt bandarísku stjórnarskránni tekur forseti fulltrúadeildarinnar við embætti forseta landsins ef bæði forseti og varaforseti landsins forfallast.
Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, sagði í dag að hann byggist við því samvinna milli demókrata og repúblikana á Bandaríkjaþingi muni aukast á næstunni í kjölfar þess að Demókrataflokkurinn hefur nú meirihluta í báðum þingdeildum. Þingmenn sóru embættiseið í dag, þar á meðal Hillary Clinton, eiginkona Bills, en hún var endurkjörin öldungadeildarþingmaður fyrir New York ríki.