Litlu mátti muna að illa færi þegar leigubílstjóri í Noregi sofnaði í akstri með þrjá farþega í bílnum. Farþegi í framsætinu gat naumlega afstýrt árekstri við bíl sem kom á móti. Leigubíllinn var þá á áttatíu km hraða.
Frá þessu greinir aftenposten.no.
Jonas Berger tjáir vefnum að hann hafi ásamt tveim félögum sínum tekið leigubíl frá Ósló til Drobak, sem er austan við borgina.
Hann segir bílstjórann hafa verið mjög úrillan. Vegna mikillar umferðar hafi túrinn dregist á langinn og bílstjórinn orðið sífellt afundnari.
Á óupplýstum vegakafla hafi bíllinn skyndilega sveigt til vinstri yfir á hinn vegarhelminginn þar sem bíll kom á móti.
Örfáum sekúndum áður en árekstur hafi orðið segist farþeginn hafa náð að grípa í stýrið og sveigja bílnum aftur yfir á hægri akreinina.
Þá opnaði leigubílstjórinn augun. Hann harðneitaði að hafa sofnað og hélt ferðinni áfram.
Fyrirtækið sem rekur leigubílinn segir bílstjórann neita því að þetta hafi gerst, og því standi orð gegn orði.