Mona Sahlin, sem um tíma var aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar, þykir nú einna líklegust til að verða eftirmaður Görans Perssons sem leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins. Sahlin er reyndur stjórnmálamaður en er umdeild, bæði innan flokksins og utan, og að sögn blaðsins Dagens Nyheter er talsverð andstaða innan tiltekinna hópa flokksmanna við að Sahlin verði flokksleiðtogi.
Flokksþing verður haldið í mars og þar á að kjósa nýjan leiðtoga í stað Perssons, sem lýsti því yfir í kjölfar þingkosninga í nóvember að hann ætlaði að segja af sér. Blaðið segir, að uppstillinganefnd hafi farið yfir málið á löngum fundi í gær. Sahlin sé efst á lista nefndarinnar en þó sé óvíst að hún verði næsti leiðtogi flokksins, vegna þess að ýmsir hafi sitthvað við hana að athuga. Hefur blaðið eftir heimildarmanni í innsta hring flokksins, að Sahlin sé nú að íhuga hvort hún gefi kost á sér í embættið.
Meðal annarra hugsanlegra kandídata er Ulrica Messing, sem gegndi ráðherraembættum í um áratug. Blaðið segir, að formaður flokksfélagsins í Gävleborg hafi eftir Messing að hún ætli ekki að gefa kost á sér en sjálf vilji Messing ekki tjá sig um samskipti sín við uppstillinganefndina. DN segir að ýmsir telji Messing þó viðunandi málamiðlun ef ekki næst samstaða um Sahlin.
Mona Sahlin þótti árið 1996 sjálfsagður arftaki Ingvars Carlssons, þáverandi flokksleiðtoga, en þá varð svonefnt Tobleronemál henni að falli þegar í ljós kom að hún hafði m.a. notað opinbert greiðslukort til að greiða fyrir ýmsar vörur, þar á meðal toblerone-súkkulaði.
Meðal þeirra jafnaðarmanna, sem hafa lýst því yfir að þeir gefi ekki kost á sér í leiðtogakjörinu eru Margot Wallström, sem situr nú í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og fyrrum ráðherrarnir Carin Jämtin og Thomas Bodström.