Zawahri hvetur íslamista til bardaga í Sómalíu

Hermenn bráðabrigðastjórnarinnar í Sómalíu aka um götur höfuðborgarinnar Mogadishu.
Hermenn bráðabrigðastjórnarinnar í Sómalíu aka um götur höfuðborgarinnar Mogadishu. AP

Ayman al-Zawahri, annar æðsti leiðtogi al-Qaeda samtakanna, hefur hvatt liðsmenn íslömsku harðlínuklerkanna í Sómalíu til að sitja fyrir eþíópískum hersveitum í landinu og ráðast á þær með jarðsprengjum og sjálfsmorðsárásum til að endurvinna það landsvæði sem íslamistar hafa misst yfirráð yfir á undanförnum dögum. Þá kallar hann eþíópísku hersveitirnar krossafara og útsendara Bandaríkjanna á hljóðupptöku sem birt var á Netinu í morgun.

„Ég tala til ykkar í dag á sama tíma og eþíópíska krossfaraliðið saurgar mold hinnar elskuðu íslömsku Sómalíu,” segir hann m.a. „Ég hvet hina múslímsku þjóð Sómalíu til að halda áfram baráttunni, sem háð er á vígvelli krossfaranna fyrir tilstuðlan Bandaríkjanna og bandamanna þeirra og Sameinuðu þjóðanna í bandalagi þeirra gegn íslam og múslímum.

Gerið þeim fyrirsát, leggið jarðsprengjur, gerið hóp- og sjálfsmorðsárásir uns þið sigrið þá eins og ljónin sem sigra og neyta bráðar sinnar.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert