Franskir öfgamenn fá ekki að gefa fátækum svínasúpu

Dómstóll í París komst að þeirri niðurstöðu í gær, að samtök franskra hægriöfgamanna megi ekki gefa heimilislausum Parísarbúum svínasúpu. Samtökin, sem nefnast Frönsku einingarsamtökin (SDF), hafa að undanförnu rekið súpueldhús þar sem svínasúpa er á boðstólum en bent hefur verið á, að með þessu séu samtökin að ýta undir fordóma gegn trúuðum múslimum og gyðingum, sem borða ekki svínaafurðir.

SDF segir, að svínasúpa sé hefðbundinn og næringarríkur franskur sveitaréttur en stjórnvöld í París segja að samtökin hafi ákveðið að bjóða upp á þessa súpu til að tryggja að múslimar og gyðingar þiggi ekki veitingarnar. Lögmaður SDF hefur hins vegar sagt, að engin samtök múslima eða gyðinga hafi kvartað.

Lögreglan stöðvaði súpugjafirnar í desember en dómstóll ógilti þá ákvörðun. Málinu var vísað til æðra dómstigs sem nú hefur staðfest ákvörðun lögreglunnar.

Bertrand Delanoë, borgarstjóri Parísarborgar, fagnaði niðurstöðunni og sagði hana sanna, að súpugjafir SDF hefðu verið með yfirbragði kynþáttahaturs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert