Hamas-samtökin, sem halda utan um stjórnartaumana í Palestínu, sögðust í dag ætla að tvöfalda fjölda öryggissveitarmanna í 12.000. Þetta segja samtökin eftir að Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínu, sagði öryggissveitina vera ólöglega og þá krafðist hann að þeir myndu sameinast því öryggisskipulagi sem þegar væri fyrir hendi.
„Yfirmenn sveitanna, með samþykki innanríkisráðherrans, hafa ákveðið að fjölga meðlimum í 12.000,“ sagði Islam Shahwan, talsmaður Hamas í samtali við AFP-fréttastofuna.
Embættismaður úr Fatah-hreyfingunni, sem er hliðholl Palestínuleiðtoganum, segir að tilgangurinn með ákvörðun Hamas sé að ögra Abbas.
„Ákvörðun Hamas að fjölga í sveitinni er í andstöðu við ákvörðun forsetans og hún er áætlun um að fremja fleiri pólitíska glæpi,“ sagði embættismaðurinn sem vildi ekki láta nafn síns getið.