Fyrirhuguð erkibiskupsvígsla í Varsjá í Póllandi er í uppnámi eftir að biskupinn viðurkenndi, að hann hefði átt samstarf á sínum tíma við leyniþjónustu pólsku kommúnistastjórnarinnar.
Að sögn pólskra fjölmiðla áttu fulltrúar pólsku kirkjunnar og Páfagarðs viðræður í nótt um málið en klukkan 10 hefst messa í dómkirkjunni í Varsjá þar sem átti að vígja Stanislaw Wielgus í embætti erkibiskups í borginni.
Hugsanlegt er talið að ekkert verði af vígslunni þótt messan verði sungin.
Benedikt XVI páfi skipaði Wielgus erkibiskup í Varsjá í desember. Í kjölfarið kom fram að biskupinn hefði átt samstarf við leyniþjónustu kommúnista og Wielgus viðurkenndi að hafa verið í sambandi við starfsmenn leyniþjónustunnar en neitaði að hafa veitt upplýsingar um presta.
Mál þetta hefur vakið mikið uppnám í Póllandi þar sem kaþólska kirkjan nýtur mikillar virðingar, m.a. vegna andstöðu sinnar gegn kommúnisma í Pólandi og heiminum öllum.