Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, er sagður hafa steytt hnefann framan í sænskan sjónvarpsfréttamann eftir viðtal þar sem fréttamaðurinn gekk að hart að Bildt vegna frétta um að sænska ríkissaksóknaraembættið sé að hefja rannsókn á viðskiptum utanríkisráðherrans með hlutabréf í rússnesku fyrirtæki.
Í viðtali við TV4 í Svíþjóð spurði fréttamaðurinn Ulf Kristofferson Bildt um tengsl hans við rússneska fjárfestingarfélagið Vostok Nafta, sem á talsvert stóran hlut í orkufélaginu Gazprom. Bildt sat í stjórn Vostok Nafta en sagði sig úr henni sl. haust áður en hann tók við embætti utanríkisráðherra í haust en fékk kauprétt á hlutabréfum í fyrirtækinu, sem hann seldi síðan.
Sænski umhverfisflokkurinn kærði Bildt vegna málsins og krafðist þess að rannsakað yrði hvort ráðherrann hefði gerst sekur um spillingu. Kristofferson tók viðtal við Bildt um þessi mál í dag, og ráðherrann tók spurningarnar óstinnt upp. Undir lok viðtalsins rifust Bildt og Kristofferson og rifrildið hélt áfram eftir að slökkt var á myndavélunum.
„Þetta er orðin pólitísk deila en ekki viðtal... það sem þú heldur fram nú er ekki satt og þú stuðlar að því að dreifa lygum," hefur Expressen eftir Bildt. Blaðið segir að á leiðinni út úr stúdíóinu hafi Bildt bent ógnandi á Kristofferson og steytt hnefann og sagt að hann væri í pólitískum undirróðri.
Expressen hefur eftir samstarfsmanni Bildt, að TV4 hafi greinilega ákveðið að knésetja ráðherrann og fréttamaðurinn hafi ætlað að koma höggi á Bildt og Hægriflokkinn.