Hugo Chavez, forseti Venesúela, tilkynnti í dag að hann hyggðist biðja þingið í landinu um að samþykkja lög sem veita honum rétt til að fyrirskipa þjóðnýtingu orku og fjarskiptaiðnaðarins í landinu. Þá hyggst Chavez einnig fyrirskipa stjórnarskrárbreytingar og breyta nafni landsins í „Sósíalíska lýðveldið Venesúela”.
Með lagabreytingunum yrði Chavez einnig heimilt að þjóðnýta eignir erlendra fyrirtækja í olíuhreinsunarstöðvum í héraðinu Orinoco. Ólíklegt þykir að þingið neiti að samþykkja lögin en stuðningsmenn forsetans hafa verið allsráðandi á þingi landsins síðan stjórnarandstæðingar sniðgengu kosningarnar árið 2005 í mótmælaskyni.
Chavez tilkynnti um lagabreytingarnar í ræðu sem hann hélt þegar hann tók við embætti forseta, en hann var endurkjörinn með 63% atkvæða í desember sl.