Héraðsdómur í New York dæmdi í kvöld innflytjanda frá Pakistan í 30 ára fangelsi fyrir að hafa skipulagt sprengjuárás á neðanjarðarlestarstöð á Manhattan árið 2004. Maðurinn var fundinn sekur á grundvelli uppljóstrara, sem lögregla réði til að fylgjast með múslimum í moskum og víðar í borginni í kjölfar hryðjuverkaárásanna árið 2001.
Shahawar Matin Siraj, 24 ára, var handtekinn í ágúst 2004, kvöldið fyrir flokksþing Repúblikanaflokksins. Engar sannanir fengust fyrir því að hann hefði útvegað sprengiefni eða tengdist hryðjuverkasamtökum en saksóknarar fullyrti, að hann hefði ætlað að koma fyrir sprengju í Herald Square neðanjarðarlestarstöðinni.
Verjendur sögðu hins vegar að Siraj væri ekki hættulegur brjálæðingur heldur ráðvilltur og afvegaleiddur ungur maður.
Siraj var fundinn sekur á grundvelli framburðar Osama Eldawoody, sem fenginn var til að fylgjast með múslimum í New York. Eldawoody tók upp samtöl, sem hann átti við Siraj í bókabúð í Queens og þegar talið barst að stríðinu í Írak vísaði Siraj til orðróms um að bandarískir hermenn misþyrmdu íröskum stúlkum kynferðislega.
„Það nægir mér," sagði hann á segulböndum, sem leikin voru fyrir kviðdóm. „Ég er til í allt. Mér er sama um líf mitt."
Eldawoody fullvissaði Siraj að áætlanir hans nytu stuðnings upplogins hóps sem hann nefndi Bræðralagið. Þeir ræddu um möguleg skotmörk og Siraj velti m.a. fyrir sér að eyðileggja brýr í New York eða myrða Bill Gates.
Siraj sagði fyrir rétti, að hann hefði vissulega byrjað að undirbúa árás á lestarstöðina en sagði að Eldawoody hefði æst sig upp með því að sýna sér myndir af föngum, sem misþyrmt var í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Sagði Siraj, að hefði í sínum augum verið einskonar lærifaðir, sem sagði sér að heimilt væri að drepa bandaríska hermenn og lögreglumenn vegna þess að trúarleiðtogar hefðu gefið út yfirlýsingu um heilagt stríð.