Chili sagt vinna gegn krabbameini

Rauður chilipipar í öllu sínu veldi.
Rauður chilipipar í öllu sínu veldi. mbl.is/Kristinn

Vísindamenn við háskólann í Nottingham segja rannsóknir sínar benda til þess að efnið capsaicin, sem fyrirfinnst í pipartegundum á borð við jalapeño, geti unnið gegn krabbameini með því að ráðast á hvatbera krabbameinsfruma og drepa þær þannig. Vísindamennirnir segja uppgötvunina jafnframt opna möguleikann á þróun nýrra krabbameinslyfja. Fréttavefur BBC segir frá þessu.

Rannsókn vísindamannanna sýndi að capsaicin, sem er efnið sem gerir pipar sterkan, tilheyrir sameindategund sem binst prótínum í hvatberum krabbameinsfruma og veldur dauða þeirra, án þess að skaða heilbrigðar frumur.

Efnið var reynt á lungnakrabbameinsfrumum úr mönnum og briskirtilskrabbameinsfrumum. Segir Timothy Bates, yfirmaður rannsóknarinnar að þar sem efnið ráðist beint til atlögu að karbbameinsfrumunum sjálfum trúi þeir því að fundist hafi eins kona akkilesarhæll á öllu krabbameini.

Segir Bates að þar sem efnið finnist þegar í mataræði fólks og sé notað til lækninga, m.a. við vöðvaspennu og sóríasis þá sé vitað að það sé ekki skaðlegt við neyslu og því verði mun auðveldara og ódýrara að framleiða lyf úr því en öðrum efnum. Þá sé mögulegt að fólki með krabbamein verði ráðlagt að neyta matar með kryddinu sem hluta af krabbameinsmeðferð.

Josephine Querido, upplýsingafulltrúi við krabbameinsrannsóknarstofnun Bretlands (Cancer Research UK), segir þó að ekki megi draga ályktanir af niðurstöðum vísindamannanna fyrr en þær hafi verið rannsakaðar frekar. Ekki sé víst að áhrifin eigi við um allar aðstæður eða hvort neysla á Chili pipar í mjög miklu mæli sé skaðlaus. Því sé mælt með heilbrigðu mataræði, grænmeti og ávöxtum, til að minnka líkur á krabbameini.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert